Svakalega skemmtilegur þessi uppbótartími

Það var oft mikill atgangur þegar FH sótti Leikni heim …
Það var oft mikill atgangur þegar FH sótti Leikni heim í kvöld. mbl.is/Haukur Gunnarsson

„Mér finnst þessar fimm mínútur í uppbótartíma alltaf svakalega skemmtilegar, vera þá einu marki yfir og það má lítið útaf bregða en mikið rosalega er gaman þegar það gengur allt upp, mér fannst reyndar þessar mínútur svolítið langar en svo klárast þær og þá fagnar maður,“ sagði Bjarki Aðalsteinsson kampakátur varnarjaxl Leiknis eftir 2:1 sigur á FH í Breiðholtinu í kvöld þegar fram fóru síðustu leikir í 6. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi Max-deildinni. 

Þó það hafi mætt talsvert á Breiðhyltingum fyrir hlé og á köflum, var engin afsláttur í kortunum.  „Við erum á heimavelli, erum með boltann og ætluðum að finna okkar leikplan, setja svolitla pressu á andstæðinginn  þó við þyrftum að fara aftarlega stundum en vindurinn setti svolítið mark sitt á leikinn en okkar leikur gekk upp fullkomlega upp.  Við vissum að FH-ingar ætluðu að finna Matthías fremst á vellinum en við ætluðum að manna hann og loka svæðinu í  kringum hann.  Við gerðum það vel í dag en auðvitað komu augnablik þegar FH-ingar ná að spila sinn leik en við tókum á því aftast í vörninni og Guy var sterkur í markinu hjá okkur.“

Margir hafa spáð Leikni falli og Bjarki segir það ekkert skrýtið.  „Mér finnst þessi spá um okkur vera eðlilega miðað að við séum nýliðar sem lentum í öðru sæti í næstefstu deild í fyrra en við vitum algerlega hvað við getum og um okkar stöðu, hvar við erum staddir og hvað við höfum verið að byggja ofan á það síðustu tvö til þrjú ár.  Við sáum reyndar þessa spá en vorum ekkert að spá í hana, við höfum bara svo mikla trú á þessu verkefni sem er í gangi hjá okkur,“  sagði Bjarki að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert