Eggert Gunnþór Jónsson og Guðmann Þórisson, tveir af reynslumestu leikmönnum FH, verða að öllum líkindum ekki með liðinu þegar það sækir Leikni úr Reykjavík heim í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Þeir fóru báðir meiddir af velli í 0:2 tapinu gegn KR á Kaplakrikavelli á laugardaginn.
Sagði Ólafur Jóhannesson, fyrrverandi þjálfari FH til margra ára, í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gær að þeir myndu báðir missa af leik kvöldsins.
Aðeins tveir dagar eru á milli leikjanna og kemur leikur kvöldsins því að öllum líkindum of snemma fyrir Eggert Gunnþór og Guðmann, sem fóru báðir af velli á 21. mínútu leiksins gegn KR.
Leik Leiknis og FH, sem hefst klukkan 19.15 í kvöld, verður lýst beint í textalýsingu hér á mbl.is.