„Við erum þokkalega sáttir við þetta stig eftir að hafa lent undir þegar stutt var eftir,“ sagði Helgi Valur Daníelsson, leikmaður Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli við Víking úr Reykjavík á útivelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld.
Fylkir komst í 1:0 í fyrri hálfleik, lenti 1:2 undir í seinni hálfleik en tókst að jafna í blálokin. „Við erum svekktir við mörkin sem við fengum á okkur. Við hefðum getað gert betur því við vorum þéttir. Þetta var kannski ekki fallegasti fótboltinn sem við spiluðum en við börðumst vel og töldum okkur geta tekið þrjú stig þegar við komumst í 1:0.
Þeir ýttu öllum fram og sóttu þegar þeir voru 1:0 undir. Þegar þeir skoruðu fengu þeir auka orku enda á heimavelli. Við þurftum virkilega að berjast en sem betur fer fengum við 2-3 upphlaup og skorum glæsilegt jöfnunarmark.“
Helgi tvífótbrotnaði snemma síðasta sumar og héldu margir að ferilinn væri búinn. Miðjumaðurinn 39 ára virðist eiga nóg eftir hinsvegar.
„Ég er furðugóður. Ég hef ekki spilað heilan leik í ellefu mánuði og hef verið inn og út á undirbúningstímabilinu. Ég bjóst ekki við að geta spilað heilan leik en mér líður þokkalega. Ég verð samt örugglega nokkra daga að jafna mig. Það þarf að tjasla mér saman aðeins, en það var gaman að fá heilan leik,“ sagði Helgi.