Arnór Ingvi Traustason, Rúnar Már Sigurjónsson og Viðar Örn Kjartansson verða ekki með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í komandi landsliðsverkefnum. Þetta staðfesti Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.
Arnór Ingvi gekk til liðs við New England Revolution í bandarísku MSL-deildinni um miðjan mars og er að aðlagast nýju lífi í Bandaríkjunum.
Viðar Örn Kjartansson ákvað að draga sig út úr hópnum vegna sóttvarnareglna í Noregi og í samráði við forráðamenn Vålerenga sem er félagslið Viðars.
Þá meiddist Rúnar Már á æfingu með félagsliði sínu CFR Cluj í Rúmeníu á dögunum og kemst því ekki með í verkefnið.
Ísland mætir Mexíkó í Texas 30. maí, Færeyjum í Þórshöfn 4. júní og loks Póllandi 8. júní í Poznan.