Gaf ekki kost á sér af persónulegum ástæðum

Gylfi Þór Sigurðsson gaf ekki kost í verkefnið.
Gylfi Þór Sigurðsson gaf ekki kost í verkefnið. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég átti mjög góð samtöl við leikmennina áður en hópurinn var valinn,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

„Við vildum að sjálfsögðu fá sem flesta til þess að taka þátt í þessu verkefni. Á sama tíma skil ég mjög vel ákvörðun þeirra leikmanna sem ákváðu að gefa ekki kost á sér að þessu sinni.

Þeir eru allir með sínar ástæður sem eru jafn mismunandi og fólkið er margt. Sem fyrrverandi leikmaður og manneskja skil ég þá mjög vel.

Á sama tíma þá er ég auðvitað ekki sammála því ég vil auðvitað fá alla leikmennina sem þjálfari liðsins.

Það væri mjög óeðlilegt ef ég myndi bara segja að það væri hið besta mál að þeir hafi ekki gefið kost á sér,“ sagði Arnar.

Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson eru ekki í hópnum.
Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson eru ekki í hópnum. mbl.is/Golli

Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson eru á meðal reynslumestu leikmanna liðsins en þeir eru ekki með í komandi verkefni.

„Alfreð er búinn að vera glíma við erfið meiðsli og þarf að finna sitt gamla form. Það sama er upp á teningnum hjá Jóa sem vill ná almennilegu flugi.

Ástæðan fyrir fjarveru Gylfa eru persónulegar ástæður. Við eigum allir fjölskyldur og börn og við vitum hvernig lífið er utan fótboltans,“ bætti Arnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert