Dagur Dan Þórhallsson, leikmaður Fylkis í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, fór meiddur af velli í leik Víkings úr Reykjavík og Fylkis í 6. umferð Pepsi Max-deildarinnar á Víkingsvelli í Fossvogi í gær.
Dagur Dan fékk slæmt höfuðhögg undir lok leiksins eftir samstuð við Halldór Smára Sigurðsson en Þórhallur Dan Jóhannsson, faðir Dags og leikmaður Fylkis um árabil, var afar ósáttur við atvikið.
„Hann er kominn heim en hann var illa áttaður greyið,“ sagði Þórhallur Dan, faðir Dags, um atvikið í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun.
„Hann reifst aðeins við Atla Svein Þórarinsson [þjálfara Fylkis] því hann vildi fara aftur inn á en Atli tjáði honum bara að hann færi út af.
Dómarinn metur það sem svo að um samstuð hafi verið að ræða en samt erum við alltaf að tala um hvaða áhrif höfuðáverkar hafa haft á bæði knattspyrnukarla og knattspyrnukonur.
Ég er ekki að segja þetta af því að þetta er sonur minn en það á að refsa mönnum fyrir svona brot því hann á aldrei möguleika í boltann þegar hann fer í þetta skallaeinvígi.
Umfjöllunin í Pepsi Max-stúkunni um þetta atvik er í besta falli hlægileg. Þeir eru að fjalla um Arnar Gunnlaugsson [þjálfara Víkings] vin sinn og þar er ekki sagt neitt til að styggja hann.
Arnar svaraði þessu reyndar mjög vel í viðtali og sagði að hann hefði orðið brjálaður yfir þessu tiltekna atviki og skaut bæði Gumma Ben og Reyni Leós í fótinn,“ sagði Þórhallur meðal annars.