„Þetta er mjög mikilvægt verkefni fyrir okkur því við erum fyrst og fremst að reyna þróa liðið okkar,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.
„Landsliðið er að ganga í gegnum eðlilega og ákveðna þróun. Okkar lið hefur verið í föstum skorðum, undanfarin tíu ár, og leikmennirnir hafa verið algjörlega frábærir.
Endurnýjunin í liðinu hefur hins vegar verið lítið og við lítum á þetta verkefni sem frábæran glugga fyrir okkur til þess að stilla eldri og reynslumeiri leikmönnum upp með yngri og óreyndari mönnum.
Það er ekki hægt að fara inn í æfingaleiki og ætla að henda sjö ungum og efnilegum leikmönnum út í djúpu laugina gegn liði eins og Mexíkó sem dæmi,“ sagði Arnar.
Margir leikmenn eru að stíga sín fyrsta skref með íslenska landsliðinu í komandi verkefnum.
„Ungu strákarnir sem eru að koma inn í þetta þurfa að geta stutt sig við okkar eldri og reyndari leikmenn og þess vegna vildum við fá okkar reynslumestu leikmenn með í þetta verkefni.
Það er ákveðið gat í hópnum okkar því við erum með leikmenn sem eru um þrítugt og yfir og svo í kringum 21. árs aldurinn.
Jafnvægið í hópnum er því ekki alveg eins og það ætti að vera en ein af ástæðum þess er ótrúlegt gengi liðsins undanfarinn áratug,“ bætti Arnar við.