Vildu vernda Íslandsmótið í knattspyrnu

Gísli Eyjólfsson er í íslenska landsliðshópnum.
Gísli Eyjólfsson er í íslenska landsliðshópnum. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

„Við vorum búnir að velja hópinn í síðustu viku en lendum svo í því á mánudaginn að við missum fjóra leikmenn úr hópnum og það sama gerðist á þriðjudaginn,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Til stóð að Arnar Þór, ásamt Eið Smára Guðjohnsen aðstoðarþjálfara liðsins, myndu tilkynna íslenska landsliðshópinn sem tekur þátt í komandi landsliðsverkefnum gegn Mexíkó, Færeyjum og Póllandi á miðvikudaginn síðasta en fundinum var óvænt frestað.

„Sú staða kom því upp á miðvikudaginn að hópurinn var í raun ekki klár og þess vegna frestuðum við því að tilkynna hann. Að sama skapi þurftum við að velja leikmenn sem spila á Íslandi, eitthvað sem við ætluðum okkur alls ekki að gera, því við vildum vernda bæði Íslandsmótið, leikmennina og auðvitað klúbbana,“ sagði Arnar.

Arnar er þakklátur félögunum fyrir að hleypa leikmönnum í verkefnið á þessum sérstöku tímum.

„Ég vil þakka félögunum sérstaklega fyrir að koma til móts við okkur með þetta val og það var frábært að geta stólað á þau.

Planið er svo að þeir leikmenn sem leika á Íslandi snúi aftur til landsins eftir landsleikinn gegn Mexíkó,“ bætti Arnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka