„Ég er svekktur að hafa ekki náð að skora. Selfyssingar voru þéttar og skipulagðar og eru með virkilega flott lið, það er erfitt að eiga við þær,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari botnliðs Fylkis, sem gerði 0:0 jafntefli við topplið Selfoss í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu á Selfossi í kvöld.
Það var fátt um færi í leiknum í kvöld og ákveðinn vendipunktur varð í leiknum á 38. mínútu þegar Guðný Geirsdóttir, markvörður Selfoss, fékk rauða spjaldið og Selfyssingar því manni færri í rúmlega 50 mínútur. Fylki tókst ekki að nýta liðsmuninn.
„Eins og síðustu leikjum þessara liða þá er ekki mikið um opnanir í leiknum. Mér finnst þetta nánast endurtekning af leiknum hérna síðast, nema þá var kannski Selfoss aðeins sterkara þó að við höfum unnið þann leik. Við hefðum vel getað klárað þetta hérna í kvöld og fengum upplegg þannig, en engin færi. Við kláruðum góðu stöðurnar ekki nógu vel. Það er kannski ekki hægt að vera of svekktur því við erum ánægð með margt sem við getum byggt á. Það er klárt að við erum þakklát fyrir hvern punkt sem við náum í og það hefði verið geggjað að taka þrjá punkta hérna en maður getur varla ætlast til þess því markvörður Selfoss þurfti ekki að verja opið færi,“ bætti Kjartan við.
Selfyssingar voru líklegri á lokakaflanum, þrátt fyrir að vera manni færri og Kjartan segir að nokkuð hafi verið dregið af sínu liði.
„Já, það var aðeins farið að draga af okkur í lokin. Þær lögðu helling í þetta. Selfoss hefur verið að skora mikið eftir fyrirgjafir og föst leikatriði. Þær eru alltaf hættulegar þar og líkamlega sterkar, þannig að við þurftum að standa vörnina vel í lokin. En er ekki Selfoss heitasta liðið í deildinni? Og við erum að gera jafntefli þannig að við getum verið ánægð með það,“ sagði Kjartan að lokum.