Knattspyrnumaðurinn Ívar Reynir Antonsson verður frá keppni næstu mánuðina eftir að hann sleit krossband á æfingu með Víkingi Ólafsvík í vikunni. Hann er fyrirliði liðsins.
Víkingur greindi frá á Facebook-síðu sinni en þar kemur fram að Ívar fari í aðgerð á næstu vikum, áður en langt og strangt bataferli tekur við.
Ívar, sem er fæddur árið 2000, hefur leikið 56 leiki Víkingi í 1. deildinni og skorað í þeim eitt mark og lék áður tvo leiki með Fram í deildinni. Þá hefur hann leikið 13 leiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði í þeim þrjú mörk.
Fréttirnar bæta gráu ofan á svart hjá Víkingi sem er án stiga og á botni Lengjudeildarinnar.