„Þetta var hræðilegur leikur af okkar hálfu og við mættum ekki til leiks,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:7-tap liðsins gegn Breiðabliki í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.
„Við byrjuðum þetta ágætlega en svo skora þær tvö mörk á okkur eftir föst leikatriði og við brotnuðum allt of auðveldlega við það. Við féllum of neðarlega og gáfum of mörg færi á okkur sem er mjög hættulegt á móti liði eins og Breiðablik.
Þær eru með frábæra spyrnumenn og voru duglegar að snúa boltanum inn að markinu okkar í föstum leikatriðum. Þær nýttu sér vindinn vel, við vorum einfaldlega ekki klárar í það, og þá er voðinn vís,“ sagði Elísa.
Pétur Pétursson gerði tvær skiptingar í hálfleik sem skiluðu litlu fyrir Valskonur.
„Ég skil vel að þjálfararnir hafi viljað prófa eitthvað nýtt og ferskt í hálfleik með tveimur skiptingum því við þurftum á því að halda.
Planið var að mæta þeim ofar á vellinum en það gekk einfaldlega ekki upp. Þær keyrðu á okkur trekk í trekk og því miður gekk ekkert upp hjá okkur í dag.“
Valskonur hafa hikstað í upphafi tímabils en það skortir ákveðið flæði í sóknarleik liðsins.
„Það er eins og við eigum eitthvað inni en það er líka góð tilfinning. Á sama tíma höfum við líka verið að fá stig og við vorum taplausar fyrir leikinn í kvöld.
Þetta hefur kannski aðeins verið að hökta hjá okkur en við fengum góða tilfinningu eftir Fylkisleikinn og leikurinn í Eyjum var góður hjá okkur. Við vitum að þetta er þarna en við þurfum bara að finna það.“
Valskonur eru vanari því að skora sjö mörk á andstæðinga sína en að fá á sig sjö mörk.
„Það er hræðileg tilfinning að tapa 3:7 og maður vill ekki upplifa svona hluti. Á sama tíma þýðir ekki að láta svona hluti sitja eitthvað í sér.
Við eigum leik á móti Tindastóli sem verður erfiður. Við vitum það að Blikarnir munu misstíga sig á leiðinni og við höldum áfram að gefa í,“ sagði Elísa í samtali við mbl.is.