Kom frekar mikið á óvart

Hörður Ingi Gunnarsson á EM í febrúar.
Hörður Ingi Gunnarsson á EM í febrúar. AFP

„Þetta kom frekar mikið á óvart en þetta er gríðarlegur heiður,“ sagði Hörður Ingi Gunnarsson á blaðamannafundi í dag. Hörður var valinn í A-landsliðið í fyrsta skipti fyrir vináttuleikina gegn Mexíkó, Póllandi og Færeyjum á næstu dögum. 

„Þetta er augnablik sem maður þarf að nýta og reyna að soga í sig alla reynslu frá reyndari leikmönnum og njóta þess að vera hérna,“ sagði Hörður en hann leikur með FH í dag. Bakvörðurinn viðurkennir að hann vilji sanna sig í ferðinni og vekja athygli félaga erlendis. „Auðvitað gerir maður það, en það kemur ekki að sjálfu sér. Maður þarf að sýna eitthvað sjálfur og grípa gæsina og sýna að maður sé þess virði fyrir lið erlendis.“

Hörður viðurkennir að landsliðskallið hafi komið á undan áætlun, en hann lék með U21 árs landsliðinu á lokamóti EM í febrúar. „Ég er nýkominn úr alvöruprógrami hjá U21 árs landsliðinu. Við unnum markvisst að því að komast á lokamót EM þar. Nú er maður orðinn of gamall fyrir það landslið. Þá fer maður að hugsa um markmið að komast í A-liðið. Kallið kemur á undan áætlun en maður verður að taka því sem kemur og gera það besta úr því.“

Fyrsti leikur Íslands í þessu verkefni er í Dallas í Texasríki í Bandaríkjunum gegn Mexíkó. „Þetta verður hörkuleikur. Þeir eru með mjög vel mannað lið og á pappírnum eru þeir mjög sterkir. Við erum hinsvegar með góðan hóp, fullan af mönnum sem hafa spilað stóra leiki. Ég held þetta verði skemmtilegur leikur,“ sagði Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert