Leit ekki út fyrir að við værum færri

Emma Checker hefur farið vel af stað með Selfossi.
Emma Checker hefur farið vel af stað með Selfossi. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Tíu Selfyssingar héldu hreinu og náðu í stig gegn ellefu Fylkiskonum í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í kvöld. Emma Checker var maður leiksins þar sem hún stóð vaktina í hjarta Selfossvarnarinnar í 0:0 jafntefli.

„Það eru tvær hliðar á þessu. Jákvæða hliðin er að við börðumst vel og það reynir mikið á að spila manni færri í svona langan tíma. Ég held að það sé ekki hægt að líta framhjá því hvað við lögðum mikið á okkur og það leit ekki út fyrir að við værum manni færri. Um leið erum við svekktar yfir því að ná bara í eitt stig, því við förum í alla leiki til þess að sigra,“ sagði Checker í samtali við mbl.is.

Hún viðurkennir að leikurinn hafi verið erfiður en Selfyssingar hlupu mikið og mættu Fylki af mikilli ákveðni manni færri.

„Já, þetta var mjög erfiður leikur og ég verð að gefa andstæðingnum kredit því þær börðust vel og komu ákveðnar inn í báða hálfleikina. Þær gerðu okkur erfitt fyrir en ég held að við höfum höndlað pressuna mjög vel og vorum rólegar þó að við værum manni færri. Það reyndi á karakterinn í liðinu hjá okkur í dag og við stóðumst áskorunina,“ sagði Checker ennfremur og bætti við að Fylkir hafi ekki náð að skapa færi.

„Mér fannst ekki eins og það reyndi mikið á okkur í vörninni en það sama átti við á hinum enda vallarins þar sem við áttum ekki heldur mörg skot á markið. En það sýnir bara að þetta var hörkuleikur. Ég myndi ekki segja að ég sé ánægð með eitt stig, en ég tek það,“ sagði Checker að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert