Mjög skrítið

Agla María Albertsdóttir átti stórleik á Hlíðarenda í dag.
Agla María Albertsdóttir átti stórleik á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alltaf geggjað að vinna en við bjuggumst ekki alveg við þessum úrslitum fyrir leik,“ sagði Agla María Albertsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 7:3-sigur liðsins gegn Val í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Þetta eru mögnuð úrslit og ég veit satt best að segja ekki hvað gerðist. Þetta er bara mjög skrítið eiginlega. Það var mikill vindur á vellinum sem hafði klárlega áhrif og öll hornin okkar og föst leikatriði fóru á markið.

Á sama tíma fannst mér við spila nokkuð vel líka. Uppleggið var allan tímann að koma spyrnunum okkar á markið enda leggjum við mikla áherslu á það á æfingasvæðinu að æfa föst leikatriði,“ sagði Agla María.

Breiðablik lenti 0:1-undir í leiknum en skoraði sjö mörk í röð og gerði þannig út um leikinn.

„Mér fannst leikurinn heldur kaflaskiptur og við vorum með algjöra yfirburði í fyrri hálfleik. Þær voru ofarlega á vellinum í seinni hálfleik og gerðu skiptingar sem riðluðu aðeins okkar leik.

Mér fannst við samt heilt yfir mun betri aðilinn. Það eina sem er svekkjandi er að hafa fengið á sig þessu tvö mörk seinni part seinni hálfleiks enda viljum við vera þekktar fyrir það að halda markinu okkar hreinu.“

Tiffany McCarty skoraði tvívegis fyrir Breiðablik.
Tiffany McCarty skoraði tvívegis fyrir Breiðablik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ekki búnar að vinna neitt

Breiðablik fer með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar í tólf stig.

„Þessi sigur gefur okkur þvílíkt mikið en á sama tíma er deildin allt öðruvísi en hún var í fyrra þar sem það voru tvö lið í algjörum sérflokki. Í ár eru miklu fleiri lið sem geta barist á toppnum og eins eru komnir frábærir útlendingar inn í deildina líka.

Við erum þess vegna ekki búnar að vinna neitt jafn vel þótt við höfum unnið þennan leik sannfærandi. Það eru mjög erfiðir leikir fram undan enda allir leikir í deildinni hörkuleikir.“

Blikar unnu 9:0-stórsigur í fyrsta leik tímabilsins gegn Fylki á Kópavogsvelli en töpuðu svo óvænt í Vestmannaeyjum fyrir ÍBV 2:4 í annarri umferð deildarinnar.

„Við þurfum að ná upp smá stöðugleika sem er kannski ekkert óeðlilegt miðað við þær breytingar sem áttu sér stað í leikmannahópnum. Við erum með ungt lið og nýja leikmenn líka sem hafa komið mjög vel inn í þetta.

Þessi sigur gefur okkur klárlega mjög mikið upp á sjálfstraust og annað að gera en á sama tíma erum við ekki á leiðinni upp í skýin eins og í fyrstu umferðinni. Við lærðum okkar lexíu þar,“ bætti Agla María við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert