Topplið Selfoss tapaði sínum fyrstu stigum í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðið fékk nágranna sína, Fylkiskonur úr Árbænum í heimsókn. Niðurstaðan varð markalaust jafntefli.
Bæði lið geta þó gengið sátt frá borði. Selfyssingar léku manni færri í rúmar fimmtíu mínútur en náðu í stig og Fylkiskonur fagna líklega öllum stigum sem þær ná í þessa dagana, en sitja þó ennþá á botninum með tvö stig. Selfoss heldur toppsætinu með 13 stig.
Það var virkilega fátt um færi í leiknum í kvöld. Fylkiskonur mættu ákveðnar til leiks og voru á undan í flesta bolta fyrstu tuttugu mínúturnar. Þegar leið á fyrri hálfleikinn sóttu Selfyssingar í sig veðrið og voru mjög líklegar. Þá fengu þær blauta og ískalda tusku í andlitið því í skyndisókn Fylkis slapp Helena Ósk Hálfdánardóttir innfyrir og Guðný Geirsdóttir, markvörður Selfoss, mætti henni utan teigs og straujaði hana niður. Rauða spjaldið fór á loft og Selfyssingar máttu hafa sig allar við að halda aftur að Fylkiskonum á lokamínútum fyrri hálfleiks.
Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, endurskipulagði leik sinna kvenna í hálfleik. Tók Caity Heap af velli á miðjunni og setti Bergrósu Ásgeirsdóttur inn í bakvörðinn. Þetta gekk alltsaman upp hjá Alfreð því Selfyssingar léku mjög vel og skipulega í seinni hálfleik. Selfossliðinu leiðist ekkert að verjast og þó að kvöldið hafi verið langt fyrir toppliðið ógnuðu Fylkiskonur lítið og náðu aldrei að skapa sér opið færi. Þær voru líka oft of bráðlátar og létu ítrekað góma sig í rangstöðu, þrátt fyrir að Selfyssingar væru ekki að leggja neinar gildrur.
Norski markvörðurinn Benedicte Håland kom inná fyrir Guðnýju og lék sinn fyrsta leik fyrir Selfoss. Hún virkaði mjög örugg, átti eina góða vörslu en annars reyndi lítið á hana, en hún hafði góða nærveru í teignum.
Á lokakaflanum kom Hólmfríður Magnúsdóttir inná hjá Selfossi og breytti taktinum í leiknum. Hólmfríður hefur ekkert æft í vikunni, af persónulegum ástæðum, og því byrjaði hún á bekknum. Hún átti góða innkomu og það fór greinilega titringur um Fylkisliðið sem fór að hugsa meira um að verja stigið. Selfoss náði þó ekki að skapa færi þrátt fyrir að ná í góðar stöður á lokakaflanum.
Það er þétt spilað í deildinni í maímánuði og það sást að það var aðeins dregið af leikmönnum í lokin eftir mikil hlaup. Grasvöllurinn á Selfossi virðist vera í frábæru standi en líklega aðeins harður og einn af hápunktum leiksins var þegar einn leikmaður úr hvoru liði lá á vellinum með sinadrátt á 82. mínútu. Björn Ingvar Guðbergsson aðstoðardómari skar sig líka á fingri í leiknum, sem var annar hápunktur. Já, það er ýmislegt hægt að tína til í harðlæstum 0:0 leik.