Flóðgáttir opnuðust á Hlíðarenda þegar Valur fékk Breiðablik í heimsókn í toppslag úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í fimmtu umferð deildarinnar á Origo-völlinn á Hlíðarenda í kvöld.
Leiknum lauk með 7:3-sigri Breiðabliks en Tiffany McCarthy skoraði tvívegis fyrir Blika í leiknum.
Valskonur byrjuðu leikinn betur og Sigríður Lára Garðarsdóttir kom þeim yfir strax á 6. mínútu af stuttu færi út teignum eftir hornspyrnu.
Kristín Dís Árnadóttir jafnaði metin fyrir Breiðablik fimm mínútum síðar með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu.
Tiffany McCarthy kom Blikum yfir á 15. mínútu eftir stutta hornspyrnu en Agla María Albertsdóttir skrúfaði boltann snyrtilega inn á teiginn og Tiffany skallaði boltann af stuttu færi í netið.
Taylor Ziemer skoraði þriðja mark Blika fjórum mínútum síðar með frábæru vinstri fótarskoti utan teigs sem Sandra Sigurðardóttir í marki Vals réð ekki við.
Mary Vignola, bakvörður Vals, varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 31. mínútu eftir fyrirgjöf Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur og staðan því 4:1 í hálfleik, Breiðabliki í vil.
Agla María Albertsdóttir skoraði fimmta mark Blika á 52. mínútu eftir að hafa sólað Mist Edvardsdóttur upp úr skónum og þrumað boltanum í nærhornið úr teignum.
Tiffany McCarthy skoraði sjötta mark Blika af stuttu færi úr teignum eftir sendingu frá Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur áður en Karítas Tómasdóttir bætti við sjöunda markinu með skoti af stuttu færi úr teignum eftir hornspyrnu frá hægri.
Elísa Viðarsdóttir klóraði í bakkann fyrir Valskonur á 73. mínútu þegar fyrirgjöf hennar frá hægri fór yfir Telmu í marki Blika og Elín Metta Jensen skoraði þriðja mark Vals á 80. mínútu með frábæru vinstri fótar skoti, rétt utan teigs, sem small í stönginni og inn.
Blikar fara með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar í 12 stig en Valskonur eru í þriðja sætinu með 10 stig.
Valskonur byrjuðu leikinn af krafti, skoruðu mark en síðan ekki söguna meir. Þær fengu á sig tvö mörk með mjög stuttu millibili eftir hornspyrnur þar sem markvörður Valskvenna var illa staðsett og varnarmenn liðsins utan við sig.
Seinni hálfleikurinn var ögn skárri hjá Valsliðinu enda með vindinn í bakið og lentar 1:7-undir en kannski skekkir það myndina að þær hafi skorað tvö mörk í síðari hálfleik.
Blikar svöruðu strax eftir að hafa lent undir og voru komnar yfir eftir fimmtán mínútur. Eftir að Blikar komust yfir þá var í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda.
Þær byrjuðu síðari hálfleikinn svo af krafti, skoruðu þrjú mörk og gerðu út um leikinn á fyrstu tuttug mínútunum.
Maður setur spurningamerki við Valsliðið eftir þennan leik og hvort það hafi stigið liðinu til höfuðs að hafa verið spáð Íslandsmeistaratitilinum. Liðið hefur lítið sýnt á tímabilinu og sóknarleikur liðsins er afleitur.
Þá var vinstri kantmanni Valskvenna enginn greiði gerður í fyrsta byrjunarliðsleik sumarsins en hún var í vandræðum allan fyrri hálfleikinn og maður spyr sig eðlilega hvort þjálfarar Vals hafi gert stór mistök í liðsuppstillingu sinni.
Blikar voru sneggri, beittari og mun ákveðnari en Valskonur í kvöld. Þær komust trekk í trekk í stöðuna einn á einn og nýttu hana eins og best verður á kosið með Öglu Maríu Albertsdóttur fremsta í flokki sem átti stórleik.
Það eina sem skortir hjá Blikum, að því er virðist, er smá stöðugleiki en frammistaðan í kvöld lofar svo sannarlega góðu. Þær virðast vera finna taktinn sem þær voru í á síðasta tímabili og þá er voðinn vís fyrir önnur lið.
Þá tókst Blikum trekk í trekk að spila sig út úr fyrstu pressu Valskvenna á meðan Valskonum tókst það ekki með þeim afleiðingum að þær fengu sóknarmenn Breiðabliks á sig hægri vinstri allan leikinn.
Á sama tíma þurfa Valskonur að fara girða sig í brók og vinna fyrir sigrunum sínum. Liðið hreyfist varla á vellinum á allt of löngum köflum og of margir leikmenn liðsins virka þungir. Þær láta boltann vinna illa fyrir sig, og sóknarleikurinn er afar slakur.
Sigurinn hlýtur að gefa Blikum mikið sjálfstraust upp á framhaldið að gera en að fá á sig sjö mörk á heimavelli í toppslag gæti setið í Valskonum eitthvað fram á sumar.