Verða 38-40 þúsund áhorfendur

Arnar Þór Viðarsson
Arnar Þór Viðarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við æfðum í fyrsta skipti í morgun og það voru allir með á æfingunni, allan tímann. Það voru engin meiðsli,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, á blaðamannafundi í dag. 

Íslenska liðið er komið til Texas þar sem það leikur við Mexíkó aðfaranótt sunnudags í vináttuleik. „Það er algjör lúxus að geta ferðast eins og við ferðuðumst hingað. Það jákvæða við stöðuna er að við ferðum að vera í leiguflugi, þannig það hafa allir sitt pláss í vélinni og þetta er beint flug. Þó við séum að fara svona langt, þá var ferðalagið mjög þægilegt.“

Arnar segir úrslitin ekki vera aðalatriðið á móti Mexíkó. Annað skiptir meira máli í verkefni sem þessu. „Við horfum á okkur sjálfa, þótt við séum búnir að leikgreina andstæðinginn. Við erum helst að vinna í okkar gildum og leikstíl. Það er það mikilvægasta. Það eru tvö mikilvæg verkefni; annarsvegar viljum við bæta leik okkar og venja strákana á okkar leikstíl í vörn og sókn. Við getum byggt ofan á leikina þrjá sem við spiluðum í mars. Við viljum svo gefa leikmönnum hlutverk í þessu liði því við erum að reyna að þróa leikmannahópinn.“

Mexíkóska liðið er ofarlega á styrkleikalista FIFA og spilar öðruvísi fótbolta en flest evrópsk landslið. „Þetta er mjög gott lið. Þeir töpuðu 0:1 fyrir Wales í mars og þá sáum við leikstílinn hjá þeim. Þeir eru teknískir og vinnusamir. Það er mikil hlaupageta og þeir eru á ellefta sæti á heimslistanum og öðruvísi leikstíll,“ sagði Arnar, en mexíkóska liðið er mjög vinsælt í Texasríki. „Það vera 38-40 þúsund áhorfendur þarna og við spilum á AT&T-vellinum í Texas sem er spennandi,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert