„Ég er bara hrikalega glöð að hafa náð í þessi þrjú stig, þetta var ógeðslega erfitt og við vorum ekki að spila leikinn sem við vildum en við sýndum mikinn karakter að koma til baka og klára þetta, þannig ég er mjög glöð með þetta,“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA eftir 2:1 sigur á Tindastóli í samtali við mbl.is.
Þór/KA var meira með boltann í leiknum en átti erfitt með að finna glufur í vörn Tindastóls.
„Við vildum halda boltanum á jörðinni og spila hratt en við fórum dálítið að kýla fram sem var ekki að virka og þær voru að lesa vel, en mér fannst það ganga aðeins betur í seinni hálfleik að halda aðeins í boltann, færa hann á milli og þannig opnaðist smá svæði.“
Þór/KA-konur höfðu átt erfitt uppdráttar það sem af er móti og einungis náð að vinna einn leik fyrir leikinn gegn Tindastóli. Þær töpuðu leiknum á undan gegn Stjörnunni 1:0 eftir að hafa fengið á sig mark í uppbótartíma og voru því með þrjú stig í deildinni fyrir þennan leik.
„Við erum ekki ánægðar með það, við erum hundfúlar eftir síðasta leik, við eigum ekki að tapa á heimavelli en þar erum við búnar að vera tapa stigum sem við viljum ekki vera að tapa. Við viljum vera með fleiri stig en svona er staðan og við höldum bara áfram.“