Framarar unnu toppslaginn - mögnuð endurkoma Selfyssinga

Framarar fagna marki Alberts Hafsteinssonar í Grafarvogi í kvöld en …
Framarar fagna marki Alberts Hafsteinssonar í Grafarvogi í kvöld en það reyndist vera sigurmarkið. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Framarar héldu sínu striki í 1. deild karla í fótbolta, Lengjudeildinni í kvöld, þegar þeir lögðu Fjölnismenn að velli í uppgjöri tveggja efstu liðanna í rigningu og roki í Grafarvogi.

Framarar sigruðu 1:0 með marki Alberts Hafsteinssonar á 22. mínútu og eru nú með 12 stig á toppi deildarinnar eftir fjóra leiki. Fjölnismenn höfðu líka unnið fyrstu þrjá leikina og eru nú með 9 stig í öðru sæti.

Á Selfossi gerðu heimamenn sér lítið fyrir og unnu upp þriggja marka forskot Gróttu og viðureign liðanna endaði 3:3.

Pétur Theódór Árnason og Gary Martin í kapphlaupi um boltann …
Pétur Theódór Árnason og Gary Martin í kapphlaupi um boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Allt stefndi í öruggan sigur Seltirninga en Pétur Theódór Árnason kom þeim yfir og Kjartan Kári Halldórsson bætti við tveimur mörkum. En á tíu mínútna kafla upp úr miðjum síðari hálfleik skoraði Hrvoje Tokic tvö mörk og Valdimar Jóhannsson eitt fyrir Selfyssinga.

Grótta er þá með 7 stig og í þriðja sæti deildarinnar eftir leiki kvöldsins en Selfyssingar eru með 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka