Ragnar Sigurðsson hefur dregið sig óvænt úr íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu sem mætir Mexíkó, Færeyjum og Póllandi í vináttuleikjum á næstu dögum. Þetta tilkynnti KSÍ á samfélagsmiðlum sínum í gærkvöldi.
Í tilkynningu KSÍ kemur fram að Ragnar hafi dregið sig úr hópnum af persónulegum ástæðum en hann er sem stendur án félags eftir að samningur hans við úkraínska úrvalsdeildarfélagið Rukh Lviv rann út á dögunum.
„Ragnar Sigurðsson verður ekki með landsliðinu í komandi vináttuleikjum, af persónulegum ástæðum, og hefur hann þegar yfirgefið hópinn,“ segir í tilkynningu KSÍ.
„Ekki verður kallað á annan leikmann í hópinn fyrir leikinn við Mexíkó, en ákvörðun varðandi leikina við Færeyjar og Pólland verður tekin síðar,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Ragnar hefur verið lykilmaður í vörn íslenska liðsins undanfarinn áratug og er næstleikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 97 A-landsleiki á bakinu.