Agla María Albertsdóttir, kantmaður úr Breiðabliki, er besti leikmaður fimmtu umferðar Pepsi Max-deildar kvenna að mati Morgunblaðsins.
Agla María fékk hæstu einkunn, þrjú M, fyrir frammistöðu sína í stórsigri meistaranna gegn Val, 7:3, á Hlíðarenda og hún er fyrsti leikmaðurinn sem er tvívegis valinn besti leikmaður umferðar á þessu keppnistímabili.
Þær Agla María og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir eru í úrvalsliði 5. umferðar hjá Morgunblaðinu og eru báðar valdar í liðið í fjórða sinn á tímabilinu.
Lið umferðarinnar má sjá í Morgunblaðinu í dag.