Arnar Þór Viðarsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, ræddi við blaðamenn fyrir vináttulandsleikinn gegn Mexíkó í Arlington í Texas sem hefst klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.
„Við eigum von á sterkum andstæðingi með öfluga einstaklinga innan sinna raða,“ sagði Arnór Þór sem, ásamt því að vera sjálfur nýlega tekinn við landsliðinu, er með ellefu nýliða í landsliðshópnum. Hann segir því sitt hlutverk fyrst og fremst vera að hugsa um hvernig íslenska liðið muni spila, frekar en að rýna í andstæðinga. „Við erum sjálfir með nýtt þjálfarateymi hér og erum að prófa nýja hluti. Við munum því einbeita okkur að eigin leik, frekar en að giska á hver spilar fyrir Mexíkó og hvernig. En við vitum að þetta er sterkt lið.“
Margir reynslumiklir leikmenn gáfu ekki kost á sér fyrir þetta landsliðsverkefni og þá dró Ragnar Sigurðsson sig óvænt úr hópnum í gær.
„Raggi kom til mín og tilkynnti að hann þyrfti að yfirgefa hópinn af persónulegum ástæðum. Það er alveg ljóst að menn hoppa ekki frá Bandaríkjunum nema það sé eitthvað sem þeir virkilega þurfa að taka á heima sér. Við vildum auðvitað hafa hann með okkur en því miður kom eitthvað upp á. Vonandi verður allt í lagi,“ sagði Arnar en Ragnar hefur verið lykilmaður í vörn íslenska liðsins undanfarinn áratug og er næstleikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 97 A-landsleiki á bakinu.
„Annars æfðu allir aðrir í gærmorgun og þetta hafa verið jákvæðir tveir dagar. Allir hafa getað æft og líta vel út,“ bætti landsliðsþjálfarinn við. Sem fyrr segir mætir Ísland liði Mexíkó í nótt og svo eru tveir vináttuleikir á dagskrá gegn Færeyjum og Póllandi sem fram fara 4. júní og 8. júní.