Íslenska karlalandsliðið í fótbolta sem mætir Mexíkó í vináttulandsleik í Arlington í Texas í nótt er blanda af reyndum leikmönnum og óreyndum og ljóst að nokkrir munu fá tækifæri til að spila sinn fyrsta A-landsleik gegn mjög sterkum andstæðingum.
Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason, Birkir Már Sævarsson, Kolbeinn Sigþórsson, Jón Daði Böðvarsson, Hjörtur Hermannsson og markverðirnir Ögmundur Kristinsson og Rúnar Alex Rúnarsson hafa allir verið í landsliðinu um árabil og verða eflaust allir í byrjunarliði, nema annar markvarðanna að sjálfsögðu.
Eftir að Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson drógu sig út úr hópnum er hins vegar ljóst að nýliðar verða í vörninni með þeim Birki Má og Hirti.
Ljóst er að við ramman reip verður að draga í Texas því Mexíkóar mæta til leiks með sitt sterkasta lið. Mexíkó er í dag í 11. sæti á heimslista FIFA, 41 sæti fyrir ofan Ísland. Níu af þeim ellefu sem voru í byrjunarliði í sigri gegn Hollendingum í Amsterdam í október, 1:0, eru í hópnum gegn Íslandi. Einungis vantar Raúl Jiménez, framherja Wolves, sem er að jafna sig eftir alvarlega höfuðáverka, og Rodolfo Pizarro, leikmann Inter Miami á Flórída.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag