Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, verður áfram leikmaður Al-Arabi í Katar en Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, hætti störfum sem þjálfari liðsins á dögunum.
Heimir tók við liðinu árið 2018 og fékk Aron til liðs við sig ári síðar. Þá hafa þeir Freyr Alexandersson og Bjarki Már Ólafsson verið í þjálfarateymi liðsins en þeir eru einnig hættir. Aron á hins vegar eitt ár eftir af samningi sínum og ætlar að vera áfram, enda líður honum og fjölskyldunni vel í Katar.
„Ég vann mér inn auka ár, það var möguleiki að framlengja ef ég spilaði yfir sextíu prósent af leikjunum á síðasta tímabili, sem ég vissulega gerði,“ sagði Aron á blaðamannafundi fyrir vináttulandsleik Íslands og Mexíkó í Bandaríkjunum í nótt.
„Það er skrítið að Heimir, Freyr og Bjarki séu farnir en ég er vissulega vanur því að breyta um þjálfara. Nú kemur bara í ljós hvaða þjálfari kemur inn. Okkur líður vel þarna, fjölskyldan er himinlifandi í Katar og það er það sem skiptir máli.“