Völsungur lagði KF frá Siglufirði og Ólafsfirði að velli, 2:1, í Norðurlandsslag í 2. deild karla í fótbolta á Húsavík í kvöld og stöðvaði þar með sigurgöngu KF sem hafði farið mjög vel af stað á tímabilinu.
Sæþór Olgeirsson og Arnar Pálmi Kristjánsson komu Völsungi í 2:0 með mörkum sitt hvoru megin við hlé. Oumar Diouck minnkaði muninn með marki á 77. mínútu en nær komst KF ekki.
KF er þó áfram efst í deildinni með 9 stig en Völsungur er kominn í annað sætið með 7 stig.
Þá komst Njarðvík í þriðja sætið í kvöld með því að vinna Kára 2:0 í Akraneshöllinni. Andri Fannar Freysson og Einar Orri Einarsson skoruðu mörkin í fyrri hálfleik.
Hinir fjórir leikirnir í fjórðu umferð fara fram um helgina en leik Þróttar úr Vogum og Hauka var frestað til sunnudags vegna veðurs í kvöld.