Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Mexíkó í vináttulandsleik í Arlington í Texas í nótt. Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi og ræddi meðal annars um þá nýju leikmenn landsliðsins sem kallaðir voru inn í hópinn.
„Það er gaman að sjá þessa stráka sem eru að koma upp úr U21 landsliðinu og þá sem eru að fá tækifæri í íslensku úrvalsdeildinni. Þeir koma inn með mikla orku,“ sagði Aron Einar á blaðamannafundinum. Þó nokkrir reyndir leikmenn gáfu ekki kost á sér og hefur Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari kallað til alls ellefu leikmenn sem enn hafa ekki spilað sinn fyrsta landsleik.
Aron var spurður hvort hans hlutverk sem fyrirliði breytist við það að fá svo marga nýja leikmenn inn í hópinn. „Mitt hlutverk breytist kannski ekki mikið, vissulega þarf aðeins að leiðbeina og sýna hvað við höfum verið að gera síðustu ár. En þessir strákar eru líka margir vanir hugmyndafræði Arnars og Eiðs þannig að við erum að læra af hverjum öðrum,“ sagði hann og vísaði þar til að Arnar Þór og aðstoðarþjálfari hans, Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfuðu auðvitað U21-árs landsliðið.
Mexíkó er í 11. sæti á heimslista FIFA, 41 sæti fyrir ofan Ísland. Aron á því von á hörkuleik. „Þeir hafa verið að spila vel undanfarið og eru þar sem þeir eru á FIFA listanum. Mexíkó á eflaust skilið að vera þar sem liðið er.“
Sem fyrr segir mætir Ísland liði Mexíkó í nótt, leikurinn hefst klukkan eitt að íslenskum tíma, og svo eru tveir vináttuleikir á dagskrá gegn Færeyjum og Póllandi sem fram fara 4. júní og 8. júní.