Höttur/Huginn er enn með fullt hús stiga í 3. deild karla í fótbolta eftir 2:1-sigur á KFS í Vestmannaeyjum í gær.
Halldór Bjarki Guðmundsson kom Austfirðingum yfir strax á 2. mínútu en Hafsteinn Gísli Valdimarsson jafnaði á 58. mínútu. Sjö mínútum síðar fékk Frans Sigurðsson sitt annað gula spjald og þar með rautt. Höttur/Huginn nýtti sér liðsmuninn því Spánverjinn Pablo Carrascosa skoraði sigurmarkið á 80. mínútu.
Augnablik er enn taplaust og í öðru sæti eftir 1:1-jafntefli gegn Tindastóli á útivelli. Arnar Ólafsson kom Skagfirðingum yfir á 17. mínútu en Þorbergur Þór Steinarsson jafnaði á 56. mínútu og þar við sat.
Einherji vann sinn fyrsta sigur í sumar er liðið fékk Elliða í heimsókn á Vopnafjörð. Lokatölur urðu 5:2. Spánverjinn Alejandro Lechuga og Bjartur Aðalbjörnsson skoruðu tvö mörk hvor og Björn Andri Ingólfsson komst einnig á blað. Benedikt Daríus Garðarsson og Ásgeir Þorri Ingunnarson komu Elliða í 2:0 í fyrri hálfleik, en eftir það hrundi leikur liðsins.
Þá vann Sindri dramatískan 2:1-sigur á Dalvík/Reyni á heimavelli og náði í sín fyrstu stig. Mate Paponja kom Sindra yfir á 36. mínútu en Jóhann Hilmar Hreiðarsson jafnaði 69. mínútu. Sindri átti hins vegar lokaorðið því Sævar Gunnarsson skoraði sigurmarkið úr víti á lokamínútunni.
Staðan: