Ægir Jarl Jónasson, miðjumaður KR, var ánægður með fyrsta heimasigur liðsins í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu karla í sumar, sem kom í kvöld gegn ÍA, og segir KR-inga aðeins stefna ofar í töflunni.
„Þetta var ótrúlega mikilvægur sigur í kvöld, þar sem við vorum ekki búnir að vinna hérna ennþá og það var bara drullumikilvægt að ná þremur punktum. Þetta var kærkominn sigur,“ sagði Ægir Jarl í samtali við mbl.is eftir leikinn, sem vannst 3:1.
„Við komumst í 2:0 frekar snemma, eftir 13 mínútur, og svo fáum við færi til þess að klára leikinn með því að komast í 3:0 eða 4:0 í fyrri hálfleik en nýtum þau ekki,“ bætti hann við.
ÍA minnkaði svo muninn í 2:1 strax í upphafi síðari hálfleiks. „Við komum út í seinni hálfleik og erum kannski aðeins „sloppy“ í byrjun. Það er aldrei þægilegt að fá eitt mark í andlitið því þá þurfa þeir bara að skora eitt til þess að jafna.
En við héldum það út og sem betur fer náðum við að bæta við öðru marki af því að við vorum alveg að fá helling af færum. Það var gott að ná að klára þetta,“ sagði Ægir Jarl.
Hann sagði það ekki hafa komið KR-ingum á óvart af hve miklum krafti ÍA mætti til síðari hálfleiksins.
„Nei ég myndi ekki segja það. Skaginn er náttúrlega með hörkulið og svona „physical“ lið, þeir eru sterkir og spila dálítið langt og hafa eiginlega alltaf gert. Við mættum þeim bara af svipuðum krafti og náðum þá að skapa okkur fleiri færi í heildina og koma okkur í betri stöður en þeir á vellinum.“
Eftir sigurinn er KR komið upp í fjórða sæti deildarinnar og stefnan er einungis tekin upp á við.
„Algjörlega, við horfum bara upp á við. Það er alltaf bara gamla klisjan, við tökum einn leik í einu. Við þurftum að sigra í dag til þess að ná að klífa upp töfluna. Það er eina áttin sem við horfum í, upp á við,“ sagði Ægir Jarl að lokum í samtali við mbl.is.