„Við vorum með leikinn í okkar höndum í fyrri hálfleik með einu marki yfir og gátum farið í tvö mörk,“ sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfara Stjörnunnar eftir 1:1 jafntefli við Fylki í Árbænum í kvöld þegar fram fóru fyrstu leikir í 7. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-Max deildinni.
Þorvaldur var ekki sáttur við dómara leiksins. „Við missum síðan mann útaf á klaufalegan máta þegar leikmaður Fylkis fer í Emil Atlason sem sparkar frá sér og gefur færi á sér en mér fannst Fylkismaðurinn hafa fiskað. Við getum lítið kvartað yfir því, við skipulögðum okkur vel og höfðum stjórnina enda lögðu menn sig mikið fram og það fór mikil orka í það. Svo kom skemmtilegt atvik, einskonar sniðglíma á lofti og ég hef ekki séð betra júdó-útgáfu í lengri tíma. Skil ekki hvernig það er hægt að missa af því með fjóra dómara og sá leikmaður skorar síðan mark.“
Þrátt fyrir að koma til síðari hálfleiks einum færri, létu Garðbæingar ekki deigan síga og þéttu raðirnar. „Mér fannst leikmenn koma rétt stilltir inn í síðari hálfleik þrátt fyrir mikið mótlæti eða lítið gengið upp. Við fáum sama dómara í dag og dæmdi hjá okkur í Keflavík, þegar við fengum víti á okkur þar en var ekki víti. Svona hafa hlutirnir gengið og við erum vonsviknir með það en að sama skapi höfum við spilað vel - ekki nógu vel suma leikina og við gerum okkur grein fyrir því en í dag spiluðum við nógu vel og það hjálpar ekki þegar svona gengur á móti okkur. Við snúum síðan leiknum við síðustu tíu mínúturnar og fáum tvö bestu færi leiksins, sem sýnir kraftinn og dugnaðinn í liðinu. Við erum auðvitað vonsviknir með þessa fjóra dómara en getum ekki kvartað yfir því, þetta er búið og þessu verður ekki breytt nema þá að dómarastjórinn fari að tala við menn,“ bætti þjálfarinn við.