Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var svekktur með 1:3 tapið gegn KR í sjöundu umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu en segir Skagamenn þó hafa sýnt fullt af jákvæðum hlutum í leiknum sem og öðrum leikjum liðsins á fyrsta þriðjungi Íslandsmótsins.
KR komst í 2:0 eftir aðeins 13 mínútna leik og hefði getað bætt við fleiri mörkum áður en Skagamenn þéttu raðirnar og komu sér aðeins betur inn í leikinn.
„Mér fannst fyrri hálfleikurinn ekkert slakur í heild sinni. Byrjunin hjá okkur var léleg, við vorum ekki nógu góðir varnarlega. Við ætluðum að vera mikið þéttari og loka meira á hættulega bakverði, hættulega kantara og hættulega framherja KR! Við ætluðum að gera það mikið betur en niðurstaðan var ekki sú þannig að við ákváðum að breyta aðeins strax um miðjan fyrri hálfleikinn og fórum í 4-3-3.
Við fórum þá að ýta hærra upp völlinn og pressa aðeins meira. Við sköpuðum okkur alveg færi, Morten Beck [Guldsmed] fær gott færi. Við fáum alveg færi til þess að minnka muninn í fyrri hálfleik. Þannig að byrjunin var ekki góð en við gerðum alveg slatta til þess að koma okkur inn í leikinn í fyrri hálfleiknum,“ sagði Jóhannes Karl í samtali við mbl.is eftir leik.
Hann var ánægður með hvernig lið hans mætti til leiks í síðari hálfleik, en ÍA minnkaði muninn þegar aðeins 40 sekúndur voru liðnar af hálfleiknum.
„Við gerðum mikið, við keyrðum á þá snemma í seinni hálfleiknum og höfðum trú á því að við gætum komið okkur inn í leikinn aftur. Við vorum alveg búnir undir það að það myndi kannski taka aðeins lengri tíma en það svo gerði en við náðum því snemma leiks að minnka muninn.
Við fundum það alveg og höfðum trú á því að við gætum keyrt á KR-ingana og höfðum trú á því að við gætum náð jöfnunarmarkinu. Auðvitað vorum við aðeins opnari til baka en samt sem áður gerðum við það vel og pressuðum KR á köflum alveg ágætlega og hefðum getað náð jöfnunarmarki að mínu mati. Við fengum alveg færi til þess að jafna áður en KR setur þriðja markið,“ bætti hann við.
ÍA fékk einmitt dauðafæri í sókninni á undan áður en Óskar Örn Hauksson skoraði þriðja mark KR og gerði út um leikinn.
Jóhannes Karl tekur ýmislegt jákvætt úr leiknum og fleiri leikjum ÍA í sumar þótt uppskeran til þessa sé aðeins fimm stig úr sjö leikjum. „Já og það hefur alveg verið í þessu hraðmóti hjá okkur, fullt af jákvæðum hlutum. Við erum í góðu standi og getum haldið áfram að keyra á liðin seint í leikjunum og höfum alveg verið að ógna.
Auðvitað hafa kannski aðeins of margir leikir verið þannig að við höfum lent undir og það er eitthvað sem við þurfum að stilla okkur betur af með. Við getum ekki verið að lenda of oft í þeirri stöðu að þurfa alltaf að vera að koma til baka. En að sama skapi hefur það sýnt hversu hópurinn er öflugur og hversu mikill karakter er í þessum strákum að þeir láta það ekki á sig fá þótt við lendum undir, við höldum áfram.
Með aðeins meiri klókindum í kvöld og kannski pínu heppni og kannski pínu meiri gæðum í þessum stöðum sem við komumst í til þess að jafna leikinn þá hefðum við getað farið hérna burtu með jafntefli, sem hefðu verið frábær úrslit. En það er ansi mikið ef og hefði og niðurstaðan 1:3 tap sem er samt sem áður svekkjandi að mínu mati,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.