Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mátti þola 1:2-tap fyrir Mexíkó í vináttuleik á AT&T-vellinum í Arlington í Texas í nótt. Mexíkó var heilt yfir mun sterkara liðið og var sigurinn verðskuldaður.
Ísland komst þó yfir í fyrri hálfleik þegar Birkir Már Sævarsson skoraði á 14. mínútu. Hann fékk þá boltann á hægri kantinum, sótti að marki og skaut í varnarmann og í netið. Markið er það fyrsta sem Ísland skorar gegn Mexíkó í landsleik.
Eftir markið voru Mexíkóar mun meira með boltann og líklegir til að jafna en Rúnar Alex Rúnarsson í markinu og varnarmennirnir fyrir framan hann gerðu vel og staðan í hálfleik því 1:0.
Mexíkó hélt áfram að sækja í seinni hálfleik, framan af án árangurs. Á 63. mínútu kom Hirving Lozano inn á sem varamaður og það átti eftir að breyta öllu.
Lozano jafnaði á 73. mínútu er Mexíkóar sóttu eldsnöggt eftir mistök hjá annars mjög góðum Brynjari Inga Bjarnasyni. Brynjar missti boltann á hættulegum stað og örfáum sekúndum seinna var Lozano búinn að skora.
Lozano var aftur á ferðinni á 78. mínútu er hann skallaði í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Hector Herrera. Mexíkóar slökuðu á eftir markið og Íslandi gekk illa að skapa sér færi, svo 2:1 urðu lokatölur.
Mexíkó var mun sterkari aðilinn og hefðu mörkin getað orðið fleiri. Andri Fannar Baldursson fékk samt sem áður mjög gott færi í stöðunni 1:0, en tókst ekki að koma boltanum fram hjá Alfredo Talavera í marki Mexíkó og því fór sem fór.
Nokkrir leikmenn fengu sinn fyrsta landsleik í nótt og lék Brynjar Ingi Bjarnason, varnarmaður KA, best þeirra. Hann var afar öruggur í sínum aðgerðum og bjargaði nokkrum sinnum mjög vel. Því miður fyrir hann kostuðu mistök hans eitt mark, en hann lærir af því.
Hörður Ingi Gunnarsson var ekki eins sterkur í vinstri bakverðinum og Þórir Jóhann Helgason fékk úr litlu að moða en var duglegur. Ísak Bergmann Jóhannesson, sem spilaði sinn fyrsta landsleik í byrjunarliði, byrjaði ágætlega en það dró verulega af honum eftir því sem leið á leikinn, enda Mexíkó í stanslausri sókn. Af þeim sem komu inn á sem varamenn var Andri Fannar Baldursson mjög sprækur og er greinilega hæfileikaríkur.
Auk Brynjars Inga voru þeir Hörður Ingi og Þórir Jóhann í byrjunarliðinu í sínum fyrsta landsleik og inn á sem varamenn komu þrír nýliðar til viðbótar, þeir Gísli Eyjólfsson, Ísak Óli Ólafsson og Rúnar Þór Sigurgeirsson.