Leiknir frá Fáskrúðsfirði vann í gær sinn fyrsta leik í 2. deild karla í fótbolta á þessu keppnistímabili og ÍR-ingar skoruðu fimm mörk í Boganum á Akureyri.
Leiknismenn sem féllu úr 1. deildinni síðasta haust byrjuðu tímabilið illa og töpuðu þremur fyrstu leikjunum. Þeir tóku á móti Reyni frá Sandgerði í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í gær og sigruðu 4:2. Imanol Vergara skoraði tvö fyrstu mörkin og Heiðar Snær Ragnarsson kom Leikni í 3:0 rétt fyrir hlé en Elton Barros gjörbreytti stöðunni fyrir Reyni með því að skora tvö mörk í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Marteinn Már Sverrisson gulltryggði sigur Leiknis með því að skora fjórða markið um miðjan síðari hálfleik.
ÍR-ingar fóru til Akureyrar og mættu þar Magna sem einnig féll úr 1. deildinni síðasta haust. ÍR hafði fengið 1:5 skell gegn Þrótti úr Vogum í síðustu umferð en bætti fyrir það með sams konar stórsigri á Magna, 5:1. Axel Kári Vignisson, Bergvin Fannar Helgason, Jörgen Pettersen, Rees Greenwood og Róbert Andri Ómarsson komu ÍR í 5:0 áður en Alexander Ívan Bjarnason lagaði stöðuna fyrir Magna.
Fyrir vikið eru ÍR-ingar nú efstir í deildinni og með betri markatölu en KF en bæði lið eru með 9 stig. KV er með 8, Völsungur 7, Njarðvík 6, Reynir S. 6, Þróttur V. 5, Haukar 4, Magni 4, Leiknir F. 3, Kári 1 og Fjarðabyggð 1 stig.
Nýliðar KV eru enn ósigraðir og þeir unnu Fjarðabyggð 2:0 í Vesturbænum. Askur Jóhannsson og Samúel Már Kristinsson skoruðu mörkin, hvor í sínum hálfleik.
Síðasti leikur 4. umferðar fer fram í dag þegar Þróttur í Vogum tekur á móti Haukum.