Fyrsti sigurinn í höfn hjá HK

Birkir Valur Jónsson og Máni Austmann Hilmarsson í leiknum í …
Birkir Valur Jónsson og Máni Austmann Hilmarsson í leiknum í Kórnum í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar

HK vann sinn fyrsta leik á tímabilinu í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í Kórnum í kvöld þegar liðið lagði Leikni úr Reykjavík að velli, 2:1.

HK er þá komið með sex stig og fer upp í níunda sætið en Leiknir er áfram með átta stig og er í sjöunda sætinu. Jón Arnar Barðdal og Birnir Snær Ingason komu HK í 2:0 en Sævar Atli Magnússon minnkaði muninn fyrir Leikni.

Leiknismenn virtust líklegri aðilinn framan af leiknum og áttu margar góðar skottilraunir á fyrstu 20 mínútunum. Arnar Freyr Ólafsson þurfti nokkrum sinnum að vera vel á verði í marki HK-inga.

En leikurinn jafnaðist eftir það og HK náði undirtökunum á 32. mínútu. Eftir fallega sókn þar sem sending Stefans Ljubicic á Birni Snæ Ingason splundraði vörn Leiknis átti Birnir hörkuskot, Guy Smit varði en Jón Arnar Barðdal fylgdi vel á eftir og sendi boltann í markið, 1:0.

Emil Berger átti góða tilraun til að jafna metin á 35. mínútu þegar hann átti hörkuskot beint úr aukaspyrnu sem Arnar Freyr varði vel uppi í vinstra horninu.

Nú gerðust hlutirnir hratt. Á 38. mínútu stöðvuðu HK-ingar hraða sókn Breiðhyltinga á vinstri kantinum, Ívar  Örn Jónsson náði boltanum af Andrési Escobar og gaf á Birni Snæ sem brunaði inn í vítateig Leiknismanna og skoraði með föstu skoti í hornið fjær, 2:0.

HK fékk síðan dauðafæri á 41. mínútu til að gera nánast út um leikinn. Jón Arnar Barðdal var felldur og dæmd vítaspyrna. Stefan Ljubicic fór á vítapunktinn en Guy Smit í marki Leiknis varði frá honum. Önnur vítaspyrnan sem fer forgörðum hjá Stefani í vor. Staðan því 2:0 í hálfleik.

Daníel Finns Matthíasson átti gott skot úr aukaspyrnu á 56. mínútu sem Arnar Freyr varði vel í marki HK og varnarmenn komu boltanum í burtu.

Leiknismenn komust inn í leikinn aftur á 69. mínútu þegar Sævar Atli Magnússon skoraði úr þröngu færi í vítateignum í kjölfar aukaspyrnu frá hægri, 2:1. Arnar Freyr markvörður féll í baráttu við Brynjar Hlöðversson um boltann og HK-ingar voru ósáttir við að fá ekki aukaspyrnu.

Eftir þetta sóttu Breiðhyltingar meira en gekk illa að skapa sér færi gegn þéttri vörn HK. Sævar Atli átti ágætt skot í hliðarnetið á 84. mínútu eftir hornspyrnu sem var þeirra besta færi.

HK komst í dauðafæri eftir skyndisókn í byrjun uppbótartímans en varnarmaður Leiknis kastaði sér fyrir skot Örvars Eggertssonar á markteignum. HK-ingar stóðu síðan af sér pressuna í blálokin, hleyptu Leiknismönnum ekki of nálægt marki sínu og fögnuðu fyrsta sigrinum á tímabilinu.

Lífsnauðsynlegur sigur

Óhætt er að segja að sigurinn hafi verið HK-ingum lífsnauðsynlegur fyrir framhaldið í deildinni. Staða liðsins hefði ekki verið burðug ef það hefði farið án sigurs í gegnum þessa sjö leikja hrinu í maímánuði. Það sást á leikmönnum liðsins þegar leið á leikinn, taugarnar voru þandar til hins ítrasta, en sú reynsla sem þeir hafa áunnið sér í þessari deild á undanförnum tveimur árum var þeim dýrmæt á lokakaflanum. Þar vörðust þeir öllu með Martin Rauschenberg og Guðmund Þór Júlíusson örugga í hjarta varnarinnar og Arnar Freyr steig ekki feilspor í markinu fyrir aftan þá.

Að sama skapi má segja að reynsluleysið hafi verið Leiknismönnum fjötur um fót. Þeir náðu ekki að fylgja nógu vel eftir kraftmikilli byrjun og sköpuðu sér síðan ekki nægilega góð færi seinni hluta leiksins þegar þeir áttu möguleikann á því að krækja sér í stig.

En Leiknisliðið sýndi á köflum að það getur gert öllum skráveifu í þessari deild, eins og glögglega hefur komið fram í fyrstu sjö umferðum deildarinnar. Uppskeran þar er átta stig, meira en flestir spáðu Breiðhyltingum, sem greinilega eru komnir í þessa deild til að selja sig dýrt. 

HK 2:1 Leiknir R. opna loka
90. mín. HK-ingar í hálfgerðri nauðvörn en koma loks boltanum í burtu og vinna svo innkast og dýrmætan tíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka