Einum færri í tæpa klukkustund tókst Stjörnumönnum að standast áhlaup Fylkismanna þegar liðin mættust í Árbænum í kvöld en þurftu að sætta sig við sitthvort stigið í 1:1 jafntefli. Enn bíða því Garðbæingar eftir sínum fyrsta sigri.
Lítið var um að vera framan af. Fylkismenn ekki grimmir í sóknum sínum, komu jafnvel ekki nógu margir fram svo hægt væri að kalla það sókn. Stjörnumenn hinsvegar ætluðu sér að sækja, komu nokkrir fram og pressuðu jafnvel á vörn Fylkis en hvorugt liðið hafði erindi sem erfiði. Ekki fyrr en á 24. mínútu þegar Magnus Anbo skallaði inn af stuttu færi aukaspyrnu Einars Karls Ingvarssonar. Eiginlega lá þetta í loftinu. Það tók Árbæinga fullar tíu mínútur að taka við sér, sóttu þá á fleiri mönnum og komust inn í vítateig gestanna. Á 36. mínútu fækkaði í liði Stjörnunnar þegar Emil Atlason sparkaði í Arnór Gauta Jónsson rétt við nefið á dómaranum og fékk rautt spjald. Hvað annað.
Einum fleiri sóttu Fylkismenn eðlilega meira en vörn Stjörnunnar með Brynjar Gauta Guðjónsson og Björn Berg Bryde fremsta í flokki stóð sína vakt með prýði. Komu þó ekki í veg fyrir hörkuskot Orra Hrafns Kjartanssonar í stöng á 62. mínútu. Þegar leið á leikinn jókst pressa Árbæinga á meðan sóttu nánast ekki neitt. Eitthvað hitnaði í kolunum og Djair Parfitt-Williams og Heiðar Ægisson fengu gult fyrir slagsmál. Enn varð eitthvað undan að láta á og á 78. mínútu jafnaði Djair Parfitt-Williams eftir hornspyrnu Fylkis þegar Garðbæingum reyndist fyrirmunað að koma boltanum út úr teignum.