Grindavík lyfti sér upp úr fallsæti í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, með 3:2-sigri gegn Vestra á Ísafirði í 4. umferðinni í dag.
Leikurinn átti að fara fram á föstudaginn síðastliðinn en var frestað vegna slæms veðurs. Gestirnir tóku forystuna strax á 3. mínútu, Sigurður Bjartur Hallsson skoraði úr vítaspyrnu og hann bætti svo við öðru marki á 61. mínútu, einnig af vítapunktinum.
Nicolaj Madsen minnkaði muninn fyrir heimamenn á 69. mínútu en markvörðurinn Diego Garcia varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark tveimur mínútum síðar. Vladimir Tufegdzic minnkaði svo aftur muninn fyrir Vestra um stundarfjórðungi fyrir leikslok en nær komust heimamenn ekki.
Grindavík fer því upp í sex stig og situr nú í 7. sæti, fyrir neðan Vestra og Þór á markatölu. Einum leik er ólokið í fjórðu umferðinni en það er viðureign ÍBV og Víkinga frá Ólafsvík sem fer fram klukkan 17 á Hásteinsvelli í dag.