Helgi Valur Daníelsson, elsti leikmaðurinn í úrvalsdeild karla í fótbolta á yfirstandandi keppnistímabili, náði í kvöld stórum áfanga þegar Fylkir mætti Stjörnunni í Árbænum.
Hann lék sinn 400. deildaleik á ferlinum og er 29. Íslendingurinn frá upphafi sem nær þeim leikjafjölda í deildakeppni meistaraflokks.
Helgi, sem verður fertugur í sumar, lék fyrsta leikinn með meistaraflokki Fylkis árið 1998 og var síðan í röðum Peterborough á Englandi þar sem hann spilaði í C-deildinni til 2003. Þá lá leiðin aftur til Fylkis þar sem hann lék þrjú tímabil en var síðan atvinnumaður hjá Öster og Elfsborg í Svíþjóð, Hansa Rostock í Þýskalandi, AIK í Svíþjóð, Belenenses í Portúgal og AGF í Danmörku.
Helgi lagði skóna á hilluna vorið 2015 en tók þá fram á ný þremur árum síðar og hefur leikið með Fylki frá vorinu 2018.
Af þessum 400 leikjum Helga eru 110 á Íslandi, 56 á Englandi, 175 í Svíþjóð, 12 í Þýskalandi, 26 í Portúgal og 21 í Danmörku.
Hann lék um árabil með íslenska landsliðinu og spilaði 33 A-landsleiki ásamt því að leika 38 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Alls hafa nú 29 Íslendingar náð þessum leikjafjölda, samanlagt í deildakeppni heima og erlendis. Fyrr á þessu ári hafa tveir aðrir bæst í hópinn, landsliðsmennirnir Ari Freyr Skúlason og Gylfi Þór Sigurðsson, sem spiluðu 400. leikinn með stuttu millibili.
Auk Helga Vals eru aðeins tveir 400 leikja menn í deildinni í ár, Kári Árnason úr Víkingi sem á 463 leiki á ferlinum og er áttundi leikjahæstur frá upphafi, og Pálmi Rafn Pálmason úr KR sem er kominn með 436 leiki og er nú í 17. sæti. Leikjametið á Arnór Guðjohnsen sem lék 523 deildaleiki á ferlinum.