KR upp í fjórða sætið

Kjartan Henry Finnbogason fagnar marki sínu.
Kjartan Henry Finnbogason fagnar marki sínu. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

KR vann góðan 3:1 sigur á fornum fjendum sínum, ÍA, þegar Skagamenn komu í heimsókn í sjöundu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni. Með sigrinum, þeim fyrsta á heimavelli í sumar, fara KR-ingar upp í fjórða sæti deildarinnar.

KR-ingar tóku forystuna strax á 7. mínútu. Kennie Chopart átti þá hættulega fyrirgjöf frá hægri, hún endaði á fjærstönginni þar sem Óskar Örn Hauksson átti þrumuskot sem virtist stefna þvert fyrir markið eða framhjá því en fór af Gísla Laxdal Unnarssyni og þaðan fór boltinn í nærhornið, sjálfsmark.

Skömmu síðar var Chopart skyndilega sloppinn í gegn eftir laglega stungusendingu Óskars Arnar en Dino Hodzic í marki Skagamanna kom vel út á móti og varði í horn.

Á 13. mínútu tvöfaldaði KR forystu sína. Chopart tók þá á sprett og fékk að leika með boltann langa leið inn í miðjan vítateig Skagamanna, Óttar Bjarni Guðmundsson náði að pota aðeins í boltann en ekki langt og Kjartan Henry Finnbogason beið þar átekta og renndi boltanum í netið af stuttu færi, 2:0.

KR-ingar héldu áfram að þjarma að gestunum og gerðu til að mynda tilkall til þess að fá vítaspyrnu þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður. Óskar Örn átti þá skot úr teignum sem Alex Davey virtist verja með höndinni en ekkert var dæmt.

Eftir tæplega hálftíma leik slapp Atli Sigurjónsson svo einn í gegn eftir laglega rispu og stungusendingu Kristjáns Flóka Finnbogasonar en skot Atla úr dauðafæri á nærstöngina framhjá markinu.

Kjartan Henry komst einnig nálægt því að skora sitt annað mark en skot hans í D-boganum rétt framhjá markinu.

Kristján Flóki gerði sig sömuleiðis líklegan. Eftir laglega skyndisókn átti Atli mjög góða fyrirgjöf út í vítateiginn þar sem Kristján Flóki átti þrumuskot rétt innan teigs en það small í samskeytunum.

Skömmu fyrir hálfleik fékk Morten Beck Guldsmed besta færi Skagamanna í fyrri hálfleiknum þegar Gísli Laxdal átti góðan sprett og gaf boltann út á Danann í kjörstöðu en innanfótar skot hans úr teignum framhjá markinu.

Staðan því 2:0 í leikhléi.

Gestirnir í ÍA virtust greinilega áfjáðir í að bæta upp fyrir slakan fyrri hálfleik enda minnkuðu þeir muninn strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Fyrirgjöf frá hægri kanti var þá hreinsuð út þar sem Ísak Snær Þorvaldsson beið og tók stórkostlegt skot á lofti með vinstri fæti innan úr D-boganum þar sem boltinn söng uppi í nærhorninu, 2:1.

Eftir rúmlega klukkutíma leik var Kristján Flóki aftur nálægt því að skora. Kristinn Jónsson átti þá góða fyrirgjöf með jörðinni en innanfótar Kristjáns Flóka rétt innan vítateigs fór naumlega framhjá markinu.

Þegar um stundarfjórðungur lifði leiks dró aftur til tíðinda. Viktor Jónsson átti þá glæsilega stungusendingu inn á Brynjar Snæ Pálsson en Beitir Ólafsson gerði sig stóran og varði vel.

Örskömmu síðar, á 76. mínútu, átti Alex Davey allt of lausa sending til baka á Hodzic sem þurfti að tækla boltann frá undir pressu frá Kjartani Henry, hreinsun hans fór afar stutt, til Óskars Arnar, sem lagði boltann á hægri fótinn og skoraði með föstu skoti í nærhornið, 3:1.

Fimm mínútum fyrir leikslok voru KR-ingar nálægt því að bæta við fjórða markinu. Eftir laglegt samspil gaf Hjalti Sigurðsson fyrir, beint á kollinn á Kjartani Henry sem skallaði yfir nánast fyrir opnu marki.

Þar við sat og sterkur tveggja marka sigur KR staðreynd.

Óskar Örn Hauksson fagnar fyrsta marki leiksins.
Óskar Örn Hauksson fagnar fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason
KR 3:1 ÍA opna loka
93. mín. Leik lokið KR-ingar vinna góðan 3:1 sigur og fara upp í fjórða sæti deildarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka