„Við erum rosalega stoltir af strákunum,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, eftir ósigurinn gegn Mexíkó, 2:1, í vináttulandsleiknum sem fram fór í Arlington í Texas í nótt.
„Við spiluðum við lið sem er í ellefta sæti á heimslistanum, þeir eru mjög teknískir og fljótir en varnarlega vorum við mjög öflugir í leiknum og fengum ekki mörg færi á okkur. En það situr eftir svekkelsi að hafa ekki náð að hanga á jafnteflinu, eða jafnvel náð að pota inn öðru marki. Við vorum 1:0 yfir og Andri Fannar komst einn í gegn. En ég er mjög stoltur af strákunum og það er frábært að sjá að ungir strákar hafi verið að koma inn í liðið og fengið stuðning frá þeim eldri,“ sagði Arnar í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum KSÍ.
Sex leikmenn úr íslenskum liðum léku sinn fyrsta landsleik í nótt og þrír þeirra voru í byrjunarliðinu.
„Frammistaða þeirra var mjög góð. Ég held að fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því á móti hverjum við vorum að spila. Það að halda Mexíkó svona í skefjum er mjög sterk frammistaða, allir nýliðarnir sem byrjuðu inni á, voru mjög sterkir og ég er mjög ánægður með þeirra framlag. Þeir þorðu að halda boltanum og spila boltanum, þeir þorðu að gera mistök, og það viljum við sjá þegar strákar eru að koma inn í þetta. Að þeir taki sína sénsa og sýni að þeir eigi rétt á sæti í hópnum og liðinu. Ég er mjög ánægður með þá alla,“ sagði Viðar.
Áhorfendur á leiknum voru um 40 þúsund og studdu Mexíkóa vel og Arnar sagðist afar ánægður með hvernig íslensku leikmennirnir brugðust við því.
„Þessi leikvangur er mögnuð bygging og ég held að allir hafi fengið fiðring í tærnar við að koma inn á þennan völl. Þetta er frábært mannvirki og það myndaðist ótrúleg stemning hérna inni, ekki síst vegna þess að þakið var bara lokað. Hávaðinn hangir einhvern veginn yfir manni og það var skemmtileg reynsla fyrir bæði ungu strákana og þá eldri og reyndari að taka svona leik, fá aftur áhorfendur á leikina. Þetta var í fyrsta skipti í marga mánuði sem margir okkar leikmanna spiluðu fyrir framan áhorfendur,“ sagði Arnar.
„Varnarskipulag virkaði mjög vel, það var góð hreyfing á liðinu og við lokuðum mjög vel á þau svæði sem við lögðum fyrir að gætu orðið hættuleg hjá Mexíkóunum. Við náðum oft, sérstaklega til að byrja með, að halda boltanum ágætlega, og það er ekkert sjálfgefið að gera það á móti Mexíkóunum. Þetta er eitt af bestu landsliðum í heimi í því að setja pressu á boltann eftir að þeir tapa honum. Fyrstu fjórar til fimm sekúndurnar eftir að þeir tapa boltanum eru mjög erfiðar því þeir eru fljótir að setja pressu. Það var jákvætt að sjá að við þorðum að spila út úr henni. En við þurfum að læra að gera það oftar og finna þau svæði þar sem pressan er ekki. Við greinum það núna, sýnum strákunum og tökum það með okkur inn í næstu tvo leiki.
Nú tekur við langt ferðalag heim og við byrjum að undirbúa Færeyjaleikinn sem verður allt öðruvísi og við allt aðrar aðstæður. Við erum að fara í opnunarleik á nýjum leikvangi í Færeyjum og við hlökkum til að halda áfram að þróa okkar leik og þróa okkar lið. Það sem er mikilvægast fyrir mig er að nokkrir leikmenn sýndu í dag og sýndu mér og Eiði Smára að þeir eigi skilið að vera í þessum hópi,“ sagði Arnar.
Breytingar verða á hópnum fyrir leikina í Færeyjum og Póllandi.
„Það er ekki alveg klárt akkúrat núna hverjar breytingarnar verða en við klárum það allt á næsta sólarhringnum. Það verða einhverjar breytingar og við erum t.d. þunnmannaðir í miðvarðastöðunum. Jón Guðni Fjóluson er að spila bikarúrslitaleik og við vonum að hann komist vel frá honum og geti komið til okkar á mánudaginn. Við þurfum að skoða sérstaklega vörnina, hvar við þurfum að fylla upp í,“ sagði Arnar Þór Viðarsson.