Við vitum hversu góðir við erum

Birgir Baldvinsson og Valgeir Valgeirsson í baráttunni í Kórnum í …
Birgir Baldvinsson og Valgeir Valgeirsson í baráttunni í Kórnum í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar

Brynjar Hlöðversson, miðvörður Leiknis og reyndasti leikmaður liðsins, sagði eftir ósigurinn gegn HK, 2:1, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta að þeir Breiðhyltingar hefðu verið klaufar að tapa.

„Já, við vorum bara svolitlir klaufar. Okkur leið ótrúlega vel, við létum boltann ganga vel, hefðum kannski mátt vera beinskeyttari fram á við. Við litum mjög vel út en það skiptir víst ekki máli í lokin,“ sagði Brynjar við mbl.is eftir leikinn.

„Við hefðum getað brotið upp þeirra sóknir fyrr en misstum í staðinn boltann á erfiðum stöðum. Þeir gerðu þetta vel og refsuðu okkur vel á þessum kafla í fyrri hálfleik þegar þeir komust í 2:0. Guy hefði átt að gera betur í fyrsta markinu en skotið var fast og grasið er blautt þannig að það má búast við því að boltinn skoppi og sé erfiður. Við gleymdum að fylgja eftir á meðan Jón Arnar gerði það. Seinna markið var mjög vel gert hjá Birni. HK-ingar lágu til baka og refsuðu okkur, og svo héldu þeir því og hirtu því stigin,“ sagði Brynjar.

Brynjar Hlöðversson er reyndasti leikmaður Leiknis.
Brynjar Hlöðversson er reyndasti leikmaður Leiknis. mbl.is/Árni Sæberg

Guy Smit í marki Leiknis varði vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og kom í veg fyrir að HK færi með 3:0 forskot inn í leikhléið.

„Já, hann bjargaði okkur alveg og við efldumst dálítið við það. Ég fékk þetta víti á mig, það kom eftir röð mistaka hjá okkur, og þegar ég fékk vítið á mig hugsaði ég með mér að þetta væri ekki okkar dagur. En þegar hann varði, þá áttum við möguleika aftur. Það gekk hins vegar illa að skora, við gerðum þó markið á góðum tíma í seinni hálfleik og gáfum okkur tækifæri. En þeir lágu vel til baka og héldu fengnum hlut. Það var erfitt að finna glufur hjá þeim og þannig hittist þetta á í dag,“ sagði Brynjar.

Leiknismenn, sem flestir spáðu falli fyrir tímabilið eins og gjarnt er um nýliða, eru með átta stig eftir fyrstu sjö leikina. Brynjar kvaðst ekki vera ánægður með þá uppskeru.

„Nei, ég er ekki sáttur. Við hefðum átt að vera komnir með fleiri stig. En það er ekkert hægt að svekkja sig á því. Við sækjum bara fleiri stig héðan í frá. Okkur er alveg sama hverju aðrir hafa spá okkur, við vitum hversu góðir við erum. Við eigum klárlega meira inni,“ sagði Brynjar Hlöðversson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka