„Schalke gaf mér ekki leyfi til þess að spila leikinn gegn Mexíkó í Texas í Bandaríkjunum,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Schalke, í samtali við mbl.is.
Guðlaugur Victor var ekki valinn í 34 manna landsliðshóp Arnars Þórs Viðarssonar sem lék gegn Mexíkó um helgina og mætir svo Færeyjum í Þórshöfn 4. júní og Póllandi í Poznan 8. júní.
„Ég átti mjög gott spjall við Arnar Þór [Viðarsson] um leikina tvo gegn annars vegar Færeyjum og svo Póllandi. Ég gat ekki tekið þátt í leikjunum af fjölskylduástæðum þar sem ég er staddur í Kanada þessa stundina til þess að eyða tíma með stráknum mínum.
Ég fæ mjög lítið frí hjá Schalke og þarf að snúa aftur til æfinga hjá félaginu 14. júní. Ég er virkilega þakklátur landsliðsþjálfaranum fyrir að sýna mér skilning enda nánast eini glugginn fyrir mig til þess að eyða tíma með stráknum mínum áður en tímabilið hefst á nýjan leik,“ sagði Guðlaugur.
Arnar Þór Viðarsson tók við þjálfun íslenska liðsins í desember á síðasta ári með Eið Smára Guðjohnsen sér við hlið.
„Þeir hafa komið inn með sínar áherslur og spennandi hugmyndir. Undirbúningurinn fyrir síðustu landsliðsverkefni var ansi stuttur sem gerði hlutina erfiðari fyrir vikið en ég hef fulla trú á þeirri vegferð sem liðið er á undir þeirra stjórn.
Það er alltaf hungur í íslenska landsliðinu um að ná árangri en á sama tíma eru ákveðin kynslóðaskipti að eiga sér stað líka. Þrátt fyrir það ætlum við okkur á HM og það er sama hungur í hópnum núna og fyrir tíu árum síðan.“
Guðlaugur hefur gert sig gildandi með íslenska landsliðinu undanfarið ár en hann var ansi nálægt því að komast á sitt fyrsta stórmót með liðinu þegar liðið tapaði 1:2-fyrir Ungverjalandi í Búdapest í umspili um laust sæti á EM í nóvember á síðasta ári.
„Það er draumur hjá mér persónulega að komast á stórmót með Íslandi. Ungverjaleikurinn situr enn þá í mér, sérstaklega núna þegar EM er að byrja. Flestir af strákunum höfðu upplifað það að fara á stórmót en ekki ég.
Við vorum í dauðafæri í Búdapest og vorum eins nálægt því og hægt var að fara alla leið. Ég er loksins farinn að láta til mín taka með landsliðinu og farinn að hafa áhrif með minni frammistöðu og vonandi fæ ég tækifæri til þess að spila á stórmóti einn daginn,“ bætti Guðlaugur við í samtali við mbl.is.