Íslandsmeistari á leið í atvinnumennsku

Andrea Rán Hauksdóttir er á leið til Bandaríkjanna.
Andrea Rán Hauksdóttir er á leið til Bandaríkjanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Andrea Rán Hauksdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Breiðabliks, er á leið í bandarísku atvinnumannadeildina. Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu.

Samkvæmt heimildum fótbolta.net er Andrea Rán að ganga til liðs við Houston Dash en hún var ekki í leikmannahópi Breiðabliks sem vann 2:1-sigur gegn Tindastóli í átta liða úrslitum bikarkeppninnar, Mjólkurbikarsins, á Kópavogsvelli í kvöld.

Houston Dash er í sjötta sæti bandarísku atvinnumannadeildarinnar með 4 stig eftir fyrstu fjóra leiki sína en alls leika tíu lið í deildinni.

Andrea Rán, sem er 25 ára gömul, er uppalin hjá Breiðabliki og á að baki 127 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað tíu mörk.

Þá á hún að baki ellefu A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hún hefur skorað tvö mörk en hún lék í þrjú ár með háskólaliði Suður-Flórída-háskólans við góðan orðstír.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka