Afturelding, FH og Selfoss tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum í kvöld.
Afturelding vann 2:0-sigur gegn Grindavík á Grindavíkurvelli í fyrstudeildarslag sextán liða úrslitanna en það voru þær Sara Contosh og Ragna Guðrún Guðmundsdóttir sem skoruðu mörk Mosfellinga í leiknum.
Brenna Lovera, Hólmfríður Magnúsdóttir og Brynja Líf Jónsdóttir skoruðu sitt markið hver fyrir Selfoss þegar liðið heimsótti KR á Meistaravelli í Vesturbæ en lokatölur urðu 3:0, Selfossi í vil.
Þá sló fyrstudeildarlið FH úrvalsdeildarlið Þórs/KA úr leik í vítakeppni, 5:4, en Elísa Lana Sigurjónsdóttir kom FH yfir strax á 7. mínútu áður en Arna Sif Ásgrímsdóttir jafnaði metin fyrir Þór/KA á 59. mínútu.
Það verða því Afturelding, FH, Selfoss, Valur, Þróttur úr Reykjavík, ÍBV, Fylkir og Breiðablik sem verða í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin en leikirnir fara fram 25.-26. júní.
Markaskorarar fengnir af fótbolta.net.