Knattspyrnukonan Andrea Rán Hauksdóttir er gengin til liðs við Houston Dash í bandarísku atvinnumannadeildinni. Þetta staðfesti Breiðablik á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Miðjukonan, sem er 25 ára gömul, er uppalin í Kópavoginum en hún á að baki 127 leiki í efstu deild með Breiðabliki þar sem hún hefur skorað tíu mörk.
Þá á hún að baki ellefu A-landsleiki fyrur Ísland þar sem hún hefur skorað tvö mörk en hún lék í þrjú ár í Bandaríkjunum með háskólaliði Suður-Flórída-háskólans.
„Breiðablik og Houston Dash náðu samkomulagi um félagaskiptin í vetur, hluti af samkomulaginu var að Andrea myndi hefja mótið með Breiðablik og spila út maí,“ segir meðal annars í tilkynningu Blika.
Andrea Rán hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari með Breiðabliki og þrívegis bikarmeistari.