Hinn 21 árs gamli Brynjar Ingi Bjarnason lék sinn fyrsta A-landsleik í fótbolta er Ísland mætti Mexíkó í vináttulandsleik í Texas aðfaranótt síðastliðins sunnudags. Brynjar, sem er leikmaður KA, lék ekki einn einasta leik með yngri landsliðum Íslands.
Hlutirnir hafa því gerst hratt hjá Brynjari síðustu vikur, en um 40.000 manns voru á leiknum í Texas. „Manni var hent í djúpu laugina. Ég hef aldrei upplifað svona áður. Þetta var smá sjokk fyrst þegar ég fór á völlinn en ég bjóst við að stressið yrði meira. Þegar maður kom inn á völlinn og byrjaði að spila var maður rólegur og leið vel,“ sagði Brynjar á blaðamannafundi í dag.
Brynjar átti auðvelt með að aðlagast í fyrsta landsleiknum, m.a. þökk sé reynsluboltum sem voru með honum í liði. „Mexíkóarnir eru mjög teknískir og hraðari. Ég vil hrósa reynslumeiri mönnum í liðinu sem hjálpuðu mér að komast fljótt inn í hlutina, aðlagast og líða vel á vellinum. Það gerði það að verkum að maður tók ekki eftir miklum mun, þótt gæðin séu meiri,“ sagði Brynjar.
Ísland mætir Færeyjum í öðrum vináttuleik á föstudaginn kemur og svo Póllandi ytra næstkomandi þriðjudag.