Leik KA og Breiðabliks á Akureyri annars vegar og leik FH og Keflavíkur í Hafnarfirði í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, sem fara áttu fram á mánudaginn kemur hefur verið frestað.
Brynjar Ingi Bjarnason, KA, og Gísli Eyjólfsson, Breiðabliki, eru á leið með íslenska landsliðinu til Færeyja þar sem Ísland mætir Færeyjum í vináttuleik í Þórshöfn 4. júní.
Þá eru þeir Þórir Jóhann Helgason, leikmaður FH, og Ísak Óli Ólafsson, Keflavík, einnig í landsliðshópnum sem mætir Færeyjum.
Af þeim sökum hefur leikjunum tveimur verið frestað en nýr leiktími hefur ekki ennþá verið ákveðinn.