Sólveig Jóhannesdóttir Larsen og Ásdís Karen Halldórsdóttir skoruðu tvö mörk hvor fyrir Val þegar liðið heimsótti Völsung í sextán liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu á Vodafone-völlinn á Húsavík í dag.
Leiknum lauk með 7:0-sigri Vals en staðan að loknum fyrri hálfleik var 5:0, Valskonum í vil.
Sólveig skoraði tvívegis fyrir Val með stuttu millibili í fyrri hálfleik, á 16. mínútu og 20. mínútu.
Fanndís Friðriksdóttir, Mist Edvardsdóttir og Elín Metta Jensen skoruðu svo sitt markið hver fyrir Val áður en Ásdís Karen skoraði tvívegis í síðari hálfleik.
Valur, Þróttur úr Reykjavík, ÍBV, Fylkir og Breiðablik hafa öll tryggt sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppninnar en leikirnir fara fram 25.-26. júní.