Gaman að skora sem senter

Elín Metta Jensen var kát eftir stórsigur Vals í dag, …
Elín Metta Jensen var kát eftir stórsigur Vals í dag, þar sem hún skoraði tvö mörk og lagði upp annað. mbl.is/Sæþór Már Hinriksson

„Það var gaman að koma og prófa að spila á þessum velli, það var mjög góð stemning hjá okkur í dag og það gekk vel,“ sagði Elín Metta framherji Vals eftir 5:0 sigur á Tindastóli á Sauðárkróki í dag.

„Mér fannst við bara byrja ansi öflugar og áttum fínar fyrstu 45 mínútur og svo komum við bara tvíefldar í seinni hálfleik. Það kom svona smá kafli þar sem við duttum niður en við héldum bara áfram og uppskárum eftir því.“

Elín Metta skoraði tvö mörk í leiknum og átti eina stoðsendingu. Framan af móti náði hún ekki að skora en virðist vera búin að finna markaskóna á ný.

„Já það er bara fínt sko, gaman sem senter að skora náttúrulega.

Fréttaritari Morgunblaðsins spurði hana hvort hún stefndi á Gullskóinn í sumar.

„Ég ætla bara að taka einn leik í einu og sjá svo til.“

Elín Metta er í landsliðshópi A-landsliðs kvenna sem mætir Írlandi í tveimur vináttulandsleikjum á Laugardagsvelli 11. og 15. júní næstkomandi. Hún er spurð að því hvernig hún sé stemmd fyrir þá leiki.

„Bara mjög vel, hlakka til að hitta allar dömurnar þar sem koma til landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert