Fram gerði afar góða ferð austur fyrir fjall og vann gífurlega sannfærandi 4:0 útisigur gegn Selfossi í fimmtu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í kvöld. Hádramatísk sigurmörk litu svo dagsins ljós í leikjum Kórdrengja og Fjölnis.
Brasilíski sóknarmaðurinn Fred kom Frömurum í tveggja marka forystu með mörkum á 11. og 30. mínútu.
Albert Hafsteinsson skoraði þriðja mark Fram á 51. mínútu og á 69. mínútu gulltryggði Guðmundur Magnússon sigurinn með marki úr vítaspyrnu.
Fram er langefst á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 18 stig, eftir sex umferðir.
Baráttan fyrir neðan gamla stórveldið er hins vegar gífurlega hörð.
Kórdrengir unnu til að mynda dramatískan sigur á Gróttu á Domusnova vellinum í Breiðholti, þar sem Davíð Þór Ásbjörnsson var hetja heimamanna.
Hann kom Kórdrengjum yfir á 14. mínútu áður en markahrókurinn Pétur Theodór Árnason jafnaði metin skömmu síðar.
Á þriðju mínútu uppbótartíma skoraði Davíð Þór hins vegar sigurmark Kórdrengja og tryggði liðinu góðan 2:1 sigur.
Fjölnismenn voru svo hársbreidd frá því að tapa á heimavelli gegn lánlausum Víkingum frá Ólafsvík. Gestirnir komust yfir skömmu fyrir leikhlé með marki Þorleifs Úlfarssonar og virtust vera að sigla fyrsta sigri sumarsins í höfn.
Allt kom þó fyrir ekki og jafnaði Ragnar Leósson metin á fjórðu mínútu uppbótartíma. Mínútu síðar tryggði hinn 17 ára gamli Hilmir Rafn Mikaelsson Fjölni ótrúlegan 2:1 sigur.
Grindavík vann þá góðan útisigur gegn Þrótti Reykjavík.
Sigurður Bjartur Hallsson kom Grindvíkingum yfir um miðjan fyrri hálfleik áður en Daði Bergsson jafnaði metin fyrir Þrótt á 37. mínútu.
Oddur Ingi Bjarnason kom gestunum yfir að nýju á 54. mínútu og Laurens Symons bætti við á 74. mínútu. Á þriðju mínútu uppbótartíma skoraði Sam Ford svo sárabótarmark úr vítaspyrnu og 3:2 sigur Grindavíkur staðreynd.
Eftir sigra Kórdrengja, Fjölnis og Grindavíkur í kvöld er allt í járnum í baráttunni um annað sætið.
Fjölnir er í öðru sæti með 13 stig, Grindavík í því þriðja með 12 stig og Kórdrengir í fjórða sæti með 11 stig. Öll liðin hafa leikið sex leiki.