Gamla ljósmyndin: Sóttir til Þýskalands

Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Snemma í júní árið 1983 voru atvinnumennirnir Atli Eðvaldsson og Pétur Ormslev sóttir til Þýskalands til að geta tekið þátt í að verja heiður Íslands í undankeppni EM 1984. Það fyrirkomulag sem nú ríkir, að settir séu á sérstakir landsleikjadagar og þá sé gert hlé á deildakeppnum í íþróttinni, kom ekki til sögunnar fyrr en mjög var liðið á síðustu öld. Fyrir vikið gátu landsleikir verið á svipuðum tíma eða jafnvel á sama degi og leikir í stærstu deildunum í Evrópu. Fyrir litla þjóð eins og Ísland gat því stundum verið strembið að fá bestu atvinnumennina í landsleiki og eru mörg dæmi um slíkt þótt atvinnumennirnir hafi alla jafna verið viljugir til að spila fyrir landsliðið. 

Laugardaginn 4. júní var lokaumferðin í þýsku bundesligunni í knattpsyrnu árið 1983. Daginn eftir eða sunnudaginn 5. júní lék Ísland á móti Möltu á Laugardalsvelli í undankeppni EM. Flugvél frá Arnarflugi var send til Þýskalands til að sækja þá Atla og Pétur sem léku með Fortuna Düsseldorf. Voru þeir reiðubúnir til að spila landsleikinn daginn eftir þótt þeir spiluðu báðir gegn Eintracht Frankfurt í Düsseldorf. 

Arngrímur Jóhannsson, þáverandi yfirflugstjóri hjá Arnarflugi, flaug Piper Cheyenne-vél Arnarflugs til Þýskalands og heim aftur. Þrír einstaklingar úr fjölmiðlastéttinni fengu far með vélinni og fór Skapti Hallgrímsson fyrir hönd Morgunblaðsins. Gátu þeir því séð lokaleik Düsseldorf í deildinni. Íslendingarnir fengu meira fréttaefni á laugardeginum en þá gat órað fyrir þvi Atli tók upp á því að skora fimm mörk í leiknum í 5:1 sigri og varð næstmarkahæsti maður þýsku deildarinnar. Á þetta afrek Atla hefur verið minnst á fyrr í þessum dagskrárlið: Gömlu ljósmyndinni.

Myndina tók Skapti Hallgrímsson af þeim Pétri til vinstri og Atla á flugvellinum í Düsseldorf í Þýskalandi áður en haldið var heim á leið á Reykjavíkurflugvöll en Skapti skrifaði og myndaði fyrir Morgunblaðið í áratugi. 

Strax að loknum þessum eftirminnilega leik stigu Atli, Pétur Ormslev, sem einnig lék með Fortuna, Helgi Daníelsson, formaður landsliðsnefndar, og þrír íslenskir blaðamenn upp í flugvél Arnarflugs og héldu heim á leið undir dyggri stjórn Arngríms Jóhannssonar flugstjóra,“ skrifaði Skapti þegar hann rifjaði upp þessa atburði í grein í SunnudagsMoggannum árið 2012. 

Daginn eftir vann Ísland lið Möltu 1:0 á Laugardalsvellinum og skoraði Atli sigurmarkið. Skoraði hann því sex mörk sömu helgina í einni sterkustu deild í Evrópu og í undankeppni stórmóts. Ótrúlegt væri ef fleiri dæmi megi finna um slíkt. 

Leikurinn gegn Möltu var einnig sögulegur fyrir þær sakir að þá varð Sigurður Jónsson yngsti knattspyrnumaðurinn til að spila Evrópuleik með A-landsliði þegar hann kom inn á í leiknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert