Gísli Eyjólfs vitnaði í Ísak Bergmann

Gísli Eyjólfsson.
Gísli Eyjólfsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Ég er virkilega ánægður með þessa þrjá punkta,“ sagði Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn Fylki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í dag.

„Við settum í annan gír í seinni hálfleik. Þeir voru mjög þéttir fyrir í fyrri hálfleik og gerðu virkilega vel í að loka á okkur. Við gerðum vel í seinni hálfleik að nýta okkur þær glufur sem sköpuðust og við það riðlaðist leikur þeirra.

Eftir að við skoruðum fyrsta markið þurftu þeir að færa sig framar á völlinn og út úr skotgröfunum. Við það opnaðist leikurinn og við náum að skora annað mark og í stöðunni 2:0 fannst mér við vera með þetta allan tímann,“ sagði Gísli.

Blikar fagna marki Árna Vilhjálmssonar í dag.
Blikar fagna marki Árna Vilhjálmssonar í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Gísli lék sína fyrstu A-landsleiki á dögunum gegn Mexíkó í Texas og Póllandi í Poznan.

„Ég er búinn að vera nokkuð lengi í Breiðabliki og það var gott að koma aftur heim eftir landsliðsgluggann. Það er alveg smá munur að spila fyrir framan 400 manns og svo 40.000 manns. Þetta var samt geggjað í dag og það er alltaf gott að spila á Kópavogsvelli.

Maður þarf stundum að láta Árna aðeins heyra það enda elskar hann að gelta en ég er klárlega reynslunni ríkari eftir landsliðsgluggann. Þetta eru leikmenn sem maður hefur fylgst lengi með og maður nýtti tímann vel til að læra af þeim.“

Gísli reyndi fyrir sér í atvinnumennsku með Mjällby í Svíþjóð árið 2019 og viðurkennir að hann sé ekki búinn að gefa atvinnumennskuna upp á bátinn.

„Maður fékk alveg blóð á tennurnar, verandi í þessu landsliðsumhverfi, og draumurinn um atvinnumennsku er alveg til staðar enn þá.

Á sama tíma þá segir maður bara eins og góðvinur minn Ísak Bergmann Jóhannesson; það er bara næsti leikur, og svo sjáum við til,“ bætti Gísli léttur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert